Árið 2022 og smá 2023.

 Gleðilegt ár og gleðileg jól 2022 og gleðilega páska og hvítasunnu 2023.

Hérna er allt alveg ágætt að frétta. Jara er að stíga upp úr tveggja vikna veikindum. Fyrst var hún ferlega kvefuð og með eyrnabólgu og núna er hún með hlaupabólu. Það stendur til að fá rör í eyrun, aftur á mánudaginn og ég vona að hlaupabólan, sem er á undanhaldi, muni ekki skemma það. Þekki bara engan í læknisbransanum sem gæti kannski komið með innlegg varðandi það. Hefði ekki átt að gefast upp 1992. eina sem ég fékk úr þeirri önn var að sjá vin minn gúffa í sig hverju kaffisúkkulaðinu á fætur öðru og verandi algjörlega rýmisblindur á þessum tíma, stofnaði hann fólki í hættu þegar það labbaði inn í kennslusali Háskólabíós. En nóg um það. Hann hefur nú eitthvað lækkað BMI stuðulinn sinn síðan. 


Aftur að mér og mínum. Árið 2022 var bara skrambi erfitt satt að segja. Mikið að gera í vinnunni og heimafyrir. Magnea breytti vinnutímanum, þannig að hún gæti verið meira heima á kvöldin, eða öllu heldur öll kvöld. fyrir þá var hún í vinnunni til klukkan 9-10 á kvöldin 14 daga í mánuði. Það var orðið ansi leiðinlegt. Anyway, það breyttist í ágúst og erum við á því að það hafi verið góður leikur. Svona vaktavinna er alveg drepandi fyrir heimilislífið, hvað þá þegar kvöldin fara líka.

Peningalega var 2022 ansi þungt. Gas og rafmagn var upp úr öllu valdi og erum við ennþá að súpa seyðið af því. Gasið var hérumbil þrefalt á við venjulegt ár og rafmagnið svipað. Ansi klikkað og þarna sér maður neikvæðu hliðina á Evrópusambandinu. Samband sem ég annars er nokkuð sáttur við að öðru leyti. En amk rafmagnið, sem danir hafa ca 25% umhverfisvænt, verður að fylgja markaðsverði í Evrópu, sem svo hefur gert að rafmagnsverð hefur verið nokkur hundruð prósent hærra en venjulega. Við erum með forrit á símanum, sem gefur rafmagnsverð á hverjum klukkutíma yfir daginn. Og það er þveginn þvottur eftir því. 

Vinnulega var árið reyndar frábært. Ég náði bestum árangri á mínu svæði, Norðurlöndin, Stóra Bretland og Írland. Reyndar er ég með þeim hæstu yfir alla Evrópu. Ansi gaman að því, svona loksins að ég toppa í vinnunni. Vinna sem ég hef nú eiginlega verið á leið út úr í fleiri ár. Ég fékk þennan forláta bikar og svo innrammað skjal. Verðlaunin eru fyrir að halda söluáætlun og var ég yfir 200 % þar :)

Þessi viðurkenning er fín fyrir sálina. Andlegar strokur eins og sagt er.



Jólin voru róleg. Við vorum bara 3 í kotinu. Strákarnir voru á Íslandi hjá pabba sínum og nutu sín vel. 

Við fengum systur Magneu og dóttir hennar til okkar um jólin og voru þetta afslöppuðustu jól sem ég hef upplifað. Áramótin voru eins afslöppuð. 

Klukkan 22:15 á gamlárskvöld var ég einn fyrir framan sjónvarpið. Systir Magneu var farin heim, Magnea og Jara sofnaðar (Magnea átti vakt klukkan 7 nýársdag). Kettirnir sátu hjá mér ásamt hundinum Flóka. Allir þrír frekar stressaðir yfir sprengjunum. Eg horfði á annálana og svo skaupið, sem var frábært by the way.

Ég meira að segja hlustaði á ávarp útvarpsstjóra og hlustaði þar á eftir á kórsöng. Getur verið að ég sé að verða gamall.

Skrifa meira seinna.


Lifið heil og áfram Liverpool.

Ummæli

Helgi sagði…
Sendu endilega beiðni og þá skal ég skoða þetta með dótturina og hlaupabóluna. Stutt í mánudaginn samt, með svæfingu, ef hún bara rétt er að stíga upp úr tveimur pestum samtímis.
Gott blogg og gaman að lesa. Við tilheyrum litlum skara furðufugla sem enn eru að baxa við blogg. Við erum Datsun netverjanna.
Kominn tími á hitting, Addi!

Vinsælar færslur